Í tilefni af 50 ára afmæli Fjarðarkaupa er þér boðið í sannkallaða afmælisveislu sem mun standa yfir frá fimmtudeginum 21. september til laugardagsins 30. september.
Til að fagna farsælum rekstri í hálfa öld mun verslunin bjóða viðskiptavinum sínum upp á frábær afmælistilboð og margar skemmtilegar uppákomur.
Bráðskemmtilegur afmælis leikur verður í gangi meðan fagnaðurinn stendur yfir þar sem mikill fjöldi glæsilegra vinninga er í boði. Alla dagana verður svo að sjálfsögðu boðið upp á gómsætt smakk í mat og drykk; bæði frá ýmsum af okkar helstu birgjum og úr okkar eigin frábæra bakarí.
Við hlökkum til að sjá þig.
Þú tekur þátt með því að svara nokkrum spurningum um Fjarðarkaup, ef þú svarar 7 / 8 spurningum rétt kemst þú í pottinn. Þú mátt reyna eins oft og þú vilt en nafnið fer einungis 1x í Pottinn - það er til mikils að vinna!
Þann 30. september ætlum við að draga út nokkra sigurvegara sem eiga möguleika á að vinna 50.000 kr-. Inneign í Fjarðarkaup eða glæsilega gjafakörfu stútfulla af allskonar góðgæti.
Verslunin Fjarðarkaup var upphaflega opnuð við Trönuhraun í Hafnarfirði þann 7. júlí 1973 og var því með fyrstu lágvöruverðsverslunum sem opnaðar voru hér á landi. Stofnendur og fyrstu eigendur voru annars vegar hjónin Ingibjörg Gísladóttir og Sigurbergur Sveinsson ásamt dóttur sinni, Hjördísi, og hins vegar Valgerður Jónsdóttir og Bjarni Blomsterberg ásamt Birnu dóttur sinni. Ingibjörg og Sigurbergur keyptu fyrirtækið að fullu á 20 ára afmælisárinu árið 1993 og hafa Fjarðarkaup síðan verið í eigu fjölskyldunnar.
Augljóst er að umtalsverð þörf var fyrir verslun af þessu tagi í Hafnarfirði á sínum tíma. Fyrst um sinn var ekki boðið upp á kjöt, mjólk eða fisk en sú barátta entist ekki lengi og allar þessar vörur voru komnar í búðina árið 1976.
Verslunin hefur þróast umtalsvert á þessum fimmtíu árum en áhersla hefur alla tíð verið lögð á góða þjónustu og mikið vöruúrval.
Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á versluninni og nýjungar litið dagsins ljós; má þar nefna til dæmis heilsuvöruhornið Fræið, hannyrðadeildina Rokku, nýtt tölvukerfi og sjálfsafgreiðsla. Staðfesta og hófsemi hafa allt frá upphafi verið megineinkenni á starfseminni sem hefur byggt á kjörorðunum að sníða sér ávallt stakk eftir vexti. Sigurbergur Sveinsson er enn þann dag í dag aðaleigandi verslunarinnar og með honum starfa við reksturinn synir þeirra Ingibjargar heitinnar: Sveinn og Gísli. Þeir eiga síðan börn sem einnig hafa staðið vaktina um lengri eða skemmri tíma. Já, það er og verður fjölskyldubragur á Fjarðarkaupum.
Frá því við stofnuðum Fjarðarkaup höfum við kappkostað að veita góða þjónustu og bjóða upp á gott vöruúrval og gæði. Við höfum verið með frábæran starfsfólk og viljum að fyrirtækið sé góður vinnustaður. Það vonum við að hafi tekist. Afraksturinn teljum við að birtist í ánægðum viðskiptavinum sem velja að gera Fjarðarkaup að ,,búðinni sinni”. Undanfarin fimmtíu ár höfum við reynt að missa ekki sjónar á þeim grundvallargildum sem Fjarðarkaup byggðu á í upphafi og það hefur fallið ágætlega í kramið.
Við erum þakklát öllu því góða fólki sem hefur lagt leið sína hingað til okkar, sumt hvert frá upphafi en margir árum og áratugum saman. Framundan eru spennandi tímar og Fjarðarkaup munu áfram leggja sitt af mörkum til þess að tryggja virka samkeppni og framúrskarandi vöruúrval á íslenskum matvörumarkaði – neytendum í hag.
Virðingarfyllst,
Sigurbergur Sveinsson, Sveinn Sigurbergsson og Gísli Sigurbergsson