Páskakökukanína

Uppskrift í samstarfi við Gotterí og gersemar


Þessi kaka er ekki bara ein sú krúttlegasta sem ég hef gert heldur er þetta besta brownie kaka sem ég hef útbúið! NAMMMMMM!


Blaut súkkulaði brownie kaka með súkkulaði rjómaostakremi og súkkulaði Cadbury eggjum…..hvað er hægt að biðja um meira ég bara spyr?


Þetta er hin fullkomna páskakaka og ef það eru ekki að koma páskar þá er þetta samt ein sú besta kaka sem þið getið búið til svo hana má að sjálfsögðu útfæra fyrir hvaða tilefni sem er og skera út hvað sem hentar.

Páskakökukanína


Kaka


  • 350 g smjör
  • 370 g suðusúkkulaði
  • 490 g sykur
  • 6 egg
  • 170 g hveiti
  • 75 g Cadbury bökunarkakó
  • 1 tsk. salt
  • 2 pokar Cadbury mini Eggs (gróft söxuð)


  1. Hitið ofninn í 180°C og klæðið djúpa ofnskúffu með bökunarpappír, spreyið pappírinn vel með matarolíu.
  2. Bræðið saman smjör og súkkulaði yfir vatnsbaði og leyfið hitanum að rjúka aðeins úr.
  3. Þeytið egg og sykur saman þar til létt og ljóst, bætið þá súkkulaðiblöndunni varlega saman við í mjórri bunu og blandið vel.
  4. Sigtið hveiti, kakó og salt yfir skálina og vefjið saman með sleif þar til vel blandað.
  5. Vefjið að lokum gróft söxuðum súkkulaðieggjunum saman við blönduna, hellið í ofnskúffuna og bakið í um 30 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á, ekki blautu deigi.
  6. Kælið kökuna alveg í skúffunni áður en þið dragið hana úr (annars getur hún brotnað).
  7. Teiknið kanínuhöfuð á bökunarpappír. Gott að teikna hring og nota speglunaraðferð til að teikna eyrun. Teiknið yfir kökunni/ofnskúffunni og reynið að nýta kökuna sem best.
  8. Klippið bökunarpappírinn til, festið með tannstönglum, skerið kanínuna út og færið yfir á bretti/disk áður en skreytt er.


Krem


  • 100 g smjör við stofuhita
  • 270 g Philadelphia rjómaostur við stofuhita
  • 2 tsk. vanilludropar
  • ½ tsk. salt
  • 100 g Cadbury bökunarkakó
  • 600 g flórsykur


  1. Þeytið saman smjör, rjómaost og vanilludropa.
  2. Setjið kakó, flórsykur og salt saman í skál og bætið saman við í nokkrum skömmtum.
  3. Skafið vel niður á milli og þeytið þar til slétt og fallegt krem hefur myndast.
  4. Setjið í sprautupoka með hringlaga stút (um 1 cm í þvermál) og sprautið jafnar doppur á alla kökuna og skreytið.


Skreyting


  • 3 pokar Cadbury mini Eggs
  • 1 pakki Cadbury Fingers kex
  • Fersk blóm
  • Stingið Fingers kexi hér og þar í kökuna og klippið blómin niður. Skreytið með súkkulaðieggjum og blómum að vild.


Gómsæt hugmynd fyrir afskurðinn af kökunni


  • Afskurður af kökunni
  • 1 poki Dumle bananakaramellur (220g), bræddar saman í sósu með 4 msk. af rjóma
  • 500 ml rjómi
  • 1 poki Cadbury mini Eggs

  1. Brytjið afskurðinn niður nema skerið alla enda fyrst af og hendið (eða borðið, haha).
  2. Setjið nokkra bita af köku í hverja krús og hellið um 1 msk. af karamellusósu yfir.
  3. Þeytið rjómann og sprautið rjóma í hverja krús og skreytið síðan með gróft söxuðum súkkulaðieggjum og smá brúðarslöri.

Hversu krúttlegt er þetta allt saman!
Það mætti síðan auðvitað líka frysta afskurðinn og útbúa svona krúttlegt góðgæti í krús síðar við skemmtilegt tilefni!


Þessi kaka er með skemmtilegri tilraunum sem ég hef gert og það er svo gaman þegar vel tekst til og útkoman verður alveg upp á 10, þessi fengi sko 11 ef það væri hægt!

18 January 2025
Hér kemur glæný uppskrift frá vinum okkar í Nóa sem er algjörlega frábær að prófa í byrjun árs þar sem Kellogg´s All bran er í aðalhlutverki.
18 January 2025
Hér höfum við alveg einstaklega góðan MUNA hafragraut sem inniheldur meðal annars bláber, banana, möndlur og auðvitað hafra. Hann er sætur og góður á bragðið án þess þó að innihalda neinn sykur.
Share by: